Lærðu að læra

Ertu á krossgötum?

Vertu á varðbergi gegn eigin athöfnum og einnig gegn eigin framkvæmdaleysi.

Hvernig viltu að líf þitt sé?

Ef það er öðruvísi en þú vilt hafa það, hugleiddu þá inn á þær breytingar sem þú vilt gera og skrifaðu síðan lýsingu á því hvernig daglegt líf þitt tekur við sér og fer að blómstra enn betur en hingað til. Settu þér tímamörk fáeina mánuði fram í tímann. Vertu sem forstjóri og framkvæmdastjóri í eigin lífi. Búðu til þá ímynd af þér sem þú vilt að sé í raunveruleikanum.

Ertu komin vel yfir tvítugt og langar að breyta til? Fara að læra það sem þig  dreymdi um hér í "gamla daga"?

Sýndu þér þá virðingu að byggja upp sjálfsímyndina á ný.
Þetta hljómar ofur einfalt en oftar en ekki reynist þetta oft talsvert erfitt og það getur orðið auðvelt að gugna rétt áður en markmiðinu er náð, einkum ef ferðalangurinn er einn á ferð. Finndu þér ferðafélaga. Finndu þér vin á meðal vina þinna, einhvern sem vill líka vinna markvisst að því að ná markmiðum sínum. Ef vinirnir eru vandfundnir, þá er líka hægt að leita út fyrir vinahópinn því að í dag má víða finna aðila sem eru boðnir og búnir til að veita öðrum jákvæða nærveru og stuðning á byggingarpöllum sjálfstrausts og sjálfsímyndar. Þeir vita sem er að allt sem þeir veita af heilum hug og hlýju hjarta kemur margfalt tilbaka.

Þú leggur eigin stíg til framtíðar, það verður aldrei bein braut og það er líka í lagi að taka sér smá hvíld á leiðinni. Aðalatriðið er að fara aftur af stað og halda áfram að settu marki. Þegar þú kemur að krossgötum, taktu því þá fagnandi að þú ert ekki á blindgötu. Á krossgötunum áttu ýmsa möguleika og hvaða átt þú velur er undir þér komið. Hugsaðu út fyrir rammann, þar liggja óvirkjuð öfl sem bíða eftir því að þú eða aðrir komi auga á óþrjótandi tækifæri sem bíða okkar allra. Þú ert miklu sterkari en þig grunar.

Þú getur svo margt – þegar þú ákveður að ná árangri!

 

Jóna Björg Sætran, M.Ed., PCC markþjálfi